Ríkissaksóknari hefur ákveðið að mæla fyrir um opinbera rannsókn á Hafskipsmálinu, þ.e. ætluðum brotum ónafngreindra dómara við skiptarétt Reykjavíkur, ríkislögmanns, ríkissaksóknara, rannsóknarlögreglustjóra ríkisins og starfsmanna þeirra.
Beiðni um opinbera rannsókn barst frá lögmönnum Björgólfs Guðmundssonar, Páls Braga Kristjónssonar, Helgu Thomsen, ekkju Ragnars Kjartanssonar, Þórðar H. Hilmarssonar og Helga Magnússonar 2. okotóber vegna meintra brota embættismanna við rannsókn fyrir skiptarétti Reykjavíkur og þegar ákvörðun var tekin um og gerð var rannsókn á grundvelli skýrslu skiptaréttarins til ríkissaksóknara á ætlaðri refsiverðri háttsemi fólksins og annarra fyrrverandi forsvarsmanna Hafskips. Telja rannsóknarbeiðendur að rökstuddur grunur sé fyrir broti starfsmanna skiptaréttarins og við rannsókn og gerð skýrslu sinnar til rannsóknarlögreglustjóra og starfsmanna hans vegna meðferðar málsins. Með skýrslu skiptaréttar hafi verið settar fram ávirðingar gegn tilgreindum forsvarsmönnum Hafskips sem hafi þurft að sæta ýmsum þvingunarráðstöfunum m.e. gæsluvarðhaldi. Hafi þeir verið ákærðir en sýknaðir af flestum ákæruliðum. Þá telja rannsóknarbeiðendur að endanlegir dómar í málinu um sakfellingar fái ekki staðist.
Ríkissaksóknari telur rétt að fallast á kröfu rannsóknarbeiðenda vegna þeirra einkahagsmuna sem þessir aðilar telja sig hafa, þeirra almannahagsmuna sem tengjast því að fjöldi manna, sem störfuðu á vettvangi ákæruvalds og dómstóla á þessum tíma eru bornir sökum um brot í opinberu starfi, fordæmis sem fyrir hendi er um rannsókn slíks máls og afstöðu tveggja þeirra aðila sem krafan tekur til og sem telja það í þeirra þágu að rannsóknin fari fram. Mun ríkissaksóknari fela lögreglustjóra að annast rannsóknina eftir nánari fyrirmælum á grundvelli laga um meðferð opinberra mála og skila ríkissaksóknara greinargerð að rannsókn lokinni.