„Sagði honum að við stæðum við yfirlýsingar“

Árni M. Mathiesen.
Árni M. Mathiesen.

„Ég sagði honum í samtalinu að við stæðum við þær yfirlýsingar sem við höfum gefið um það að við færum að okkar skuldbindingum. Við værum með tryggingasjóðinn og myndum styðja sjóðinn. Við værum að breyta löggjöfinni til þess að styrkja stöðu innlánseigenda og að þeir ættu forgang að fjármunum út úr kerfinu."

Þetta segir Árni Mathiesen, fjármálaráðherra, um túlkun breska fjármálaráðherrans, Alistair Darling, á samtali sem þeir áttu á þriðjudag. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins skildi Darling Árna þannig, að íslensk stjórnvöld hygðust ekki bæta breskum sparifjáreigendum, sem áttu innistæður á reikningum Icesave í Bretlandi, tap sitt.

Árni segir að hugsanlega hefði breski ráðherrann vænst annarra skilaboða í símtalinu, en hann færði honum. „Hann hefur kannski ætlast til þess að ég segði honum að ég garanteraði hlutina, sem ég augljóslega gat ekki gert," segir Árni. „Ég sagði ráðherranum að Íslendingar myndu standa við sínar skuldbindingar samkvæmt dírektívinu [Evróputilskipun um vernd innistæðueigenda] og að stutt yrði  við sjóðinn. „Þetta eru hlutir sem við höfum sagt bæði áður og á eftir," segir Árni.

Árni segist ekki vita hvers vegna Darling hafi túlkað orð sín með þeim hætti sem hann gerði. „Hann hefur sennilega viljað að ég segði honum eitthvað meira," segir hann. Ráðherrann hafi sennilega viljað fá þau skilaboð að Íslendingar myndu bæta breskum sparifjáreigendum tap sitt að fullu.

„Þeir [Bretar] eru að gera kröfu um það að við ábyrgjumst þetta að fullu. En reglurnar eru bara ekki þannig. En við höfum sagt að við munum styðja tryggingasjóðinn."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert