Darling mat aðstæður eftir samtal við Árna Mathiesen

Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands
Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands Reuters

Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, skildi Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra þannig, í samtali sem þeir áttu á þriðjudag, að íslensk stjórnvöld hygðust ekki bæta breskum sparifjáreigendum, sem áttu innistæður á reikningum Icesave í Bretlandi, tap sitt. Þetta herma heimildir sem Morgunblaðið hefur úr breska fjármálaráðuneytinu. 

Darling, sem var staddur á ráðherrafundi í Lúxemborg, mat það þannig eftir símtalið að ekki fengjust bætur vegna innistæðna á Icesave reikningum.  Efnislega hafi hann skilið íslenska fjármálaráðherrann þannig að breskir sparifjáreigendur myndu tapa peningum sínum.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var það á grundvelli þessa samtals sem breski ráðherrann tjáði sig um þessi mál í gærmorgun og ákvað að frysta eignir Landsbankans í Bretlandi, en ekki vegna þess sem Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, sagði í samtali við Kastljós Ríkissjónvarpsins í fyrrakvöld.

Darling sagði á blaðamannafundi með Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, í gærmorgun, að þótt ótrúlegt virtist, hygðust íslensk stjórnvöld ekki standa við skuldbindingar sínar gagnvart breskum sparifjáreigendum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert