Ferjan St. Ola fékk á sig brotsjó skammt fyrir utan höfnina í Þorlákshöfn um klukkan átta í kvöld. Ákveðið var að halda för áfram en þrír gluggar brotnuðu og var farþegum brugðið. St. Ola siglir á milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja á meðan Herjólfur er í slipp á Akureyri.
„Það er unnið að því að farþegum verði veitt áfallahjálp þegar til Vestmannaeyja er komið," sagði Heiðrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri lögfræði og upplýsingasviðs Eimskipa við mbl.is.
„Það slasaðist enginn en fólki var brugðið," sagði Heiðrún.
Þrír gluggar í sal á stjórnborðshlið brotnuðu en áhöfn tókst að setja upp í þá til bráðabrigða. Þetta var síðasta ferð St. Ola í dag en Heiðrún sagði að fyrri ferð skipsins frá Vestmannaeyjum myndi falla niður í fyrramálið og ítrekaði hún að engin hætta væri talin vera á ferðum.
Tíu metra ölduhæð
Samkvæmt upplýsingum mbl.is er ölduhæð mikil, um 10 metrar og ferð ferjunnar sækist hægt, reiknað er með að ferjan komi til Eyja um klukkan eitt í nótt.
Það er 41 farþegi um borð og var öllum sagt að fara fremst í skipið og eru margir þeirra sjóveikir enda öldugangur mikill.
St. Ola er eistnesk ferja sem hefur þrisvar áður verið fengin í siglingar milli lands og Eyja þegar þurft hefur að sinna viðhaldi á Herjólfi.