Um 500 missa vinnuna

Gamli Landsbankinn hafði um 1.500 manns í vinnu hérlendis, en samkvæmt fréttatilkynningu um starfsemi Nýja Landsbanka Íslands hf. verða starfsmenn hans um eitt þúsund. Þetta þýðir að um 500 starfsmenn Landsbankans missa vinnuna.

Atli Atlason, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs nýja bankans, segir, að nýi bankinn verði allt öðru vísi upp byggður en sá gamli, og fyrir liggi að mest dragi úr umsvifum á sviði verðbréfaviðskipta og í verkefnum tengdum alþjóðamálum.

Því má ætla að flest störfin sem hverfa hafi verið á þeim sviðum. Atli segir að ekki muni þó allir starfsmenn á þessum sviðum missa vinnuna, því einhverjum verkefnum verði haldið áfram.

Þau verkefni sem nýi bankinn einbeiti sér að séu rekstur útibúanetsins og öll hefðbundin bankastarfsemi. Áætlað sé að til þessara verkefna þurfi alls um eitt þúsund starfsmenn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert