Verð hækkaði mest í Bónus

Sverrir Vilhelmsson

Vörukarfa ASÍ hækkaði mest í Bónus, um 2,9%, á milli verðmælinga verðlagseftirlitsins í annarri og fjórðu viku septembermánaðar. Verð körfunnar hækkaði um 1,4% í Hagkaupum og 1,2% í Nóatúni á sama tímabili. Mest lækkaði verð körfunnar í Samkaupum-Strax, um 4,4%, á milli verðmælinga og karfan lækkaði sömuleiðis í Nettó um 1,8% og í Kaskó um 0,9% á tímabilinu.

Erfitt að gera verðsamanburð vegna hreyfingar á verði

Mikil hreyfing er á verði í matvöruverslunum um þessar mundir sem getur gert neytendum erfitt um vik að átta sig á verðlagi og gera verðsamanburð, að því er segir á vef ASÍ.

„ Í ljósi mikillar lækkunar á gengi íslensku krónunnar eru teikn á lofti um áframhaldandi hækkanir á mat– og drykkjarvörum og eru neytendur því hvattir til þess að vera sérstaklega vel á verði og fylgjast með verðlagningu í verslunum. Í ljósi fjölda ábendinga sem borist hafa verðlagseftirlitinu er við þessar aðstæður einnig ástæða til að árétta að neytendur fylgist vel með því að samræmi sé á milli þess verðs sem gefið er upp á verðmerkingu inni í verslunum og því sem greitt er fyrir vöruna við kassa," að því er segir á vef ASÍ

Brauð og kornvörur hækkuðu um 3,3% í Hagkaup

Í stórmörkuðunum hækkaði verð vörukörfunnar mest, á milli verðmælinga í annarri og fjórðu viku septembermánaðar, í Hagkaupum, um 1,4% sem rekja má að mestu til hækkana á brauði og kornvörum (3,3%), grænmeti og ávöxtum( 5,7%) og sætindum (2,2%) í vörukörfunni.

Í Nóatúni hækkaði heildarkarfan um 1,2% á milli mælinga sem skýrist að mestu af hækkun á kjötvörum (4,4%), ýmsum matvörum (2,6%), mjólkurvörum og brauði og kornvörum (1,2%) í vörukörfunni, en á móti vegur lækkun á hreinlætis- og snyrtivörum (-11,4%) í körfunni.

Í Samkaupum-Úrvali hækkaði verð vörukörfunnar um 0,5% á milli verðmælinga og voru mestar hækkanir á grænmeti og ávöxtum (2,9%), mjólkurvörum, ostum og eggjum (1,3%) og brauði og kornvörum(1,1%) í körfunni.

11-11 hækkaði um 0,5%

Í klukkubúðunum hækkaði verð á vörukörfu ASÍ mest í 11-11 um 0,5% á milli verðmælinga en í 10-11 stóð verð körfunnar nánast í stað. Í Samkaupum-Strax lækkaði verð körfunnar um 4,4% á milli mælinga sem skýrist að langmestu leyti af lækkun á verði kjötvara (-16,8%) og liðnum ýmsar matvörur (-5,7%).

Sjá nánar á vef ASÍ

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert