Árvakur hf. og 365 hf. hafa undirritað samning um að sameina Fréttablaðið og Pósthúsið Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Árvakur greiðir fyrir með útgáfu nýs hlutafjár og yfirtöku skulda. Þar með kemur 365 inn í hluthafahóp Árvakurs. Útgáfa 24 stunda verður sameinuð Morgunblaðinu.
Í tilkynningu segir síðan:
„Með þessu og öðrum breytingum sem taka gildi á næstu vikum og misserum næst fram mikil kostnaðarhagræðing á dagblaðamarkaði. Einar Sigurðsson, forstjóri Árvakurs, segir að á sama tíma og fyrirtækin fari þessa leið til að hagræða í rekstri leggi þau mikla áherslu á að tryggja áfram ritstjórnarlegt sjálfstæði miðlanna.
„Þegar við sameinum 24 stundir Morgunblaðsrekstrinum stóreflum við Morgunblaðið með nýrri, kraftmeiri og ferskari helgarútgáfu blaðsins, sem verður kynnt um aðra helgi.“
Ari Edwald, forstjóri 365, segir að ekki verði breytingar á starfsemi Fréttablaðsins vegna kaupanna. „Hins vegar erum við auðvitað alltaf að leita leiða til hagræðingar í rekstrinum og því verður haldið áfram.“
Þessi kaup eru gerð með fyrirvara um samþykki hluthafafunda í félögunum og með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þar voru fyrirætlanir um kaupin kynntar fyrir nokkru og á næstu dögum verða einstakir þættir málsins skýrðir nánar.
Hluthafar Árvakurs fyrir kaupin voru félög í eigu Björgólfs Guðmundssonar, Valtýr ehf., Lyfjablóm ehf. og Garðar Gíslason ehf. Við kaupin kemur 365 hf. inn í hluthafahópinn og verður 36,5% hluthafi í Árvakri. Þór Sigfússon er áfram stjórnarformaður Árvakurs og Einar Sigurðsson forstjóri félagsins. Félagið hefur sett sér markmið um að breikka eigendahópinn þegar aðstæður á markaði gefa tilefni til.
Einar Sigurðsson, forstjóri Árvakurs hf., sagði að þessi sameining væri mikilvægt skref til að tryggja áfram öfluga dagblaðaútgáfu við mjög erfiðar rekstraraðstæður á fjölmiðlamarkaði.
„Fjölmiðlar, sem byggja rekstur sinn að verulegu leyti á auglýsingum, finna einna fyrst og sárast fyrir samdrætti í mikilvægum greinum í hagkerfinu.“
Einar sagði að félögin tvö, sem að þessu standa, gerðu sér góða grein fyrir mikilvægi þess að tryggja áfram ritstjórnarlegt sjálfstæði blaðanna.
„Við leggjum áherslu á að þjóna markaðnum, lesendum og auglýsendum, með ólíkum blöðum. En jafnframt er afar mikilvægt að við náum að framleiða þessi blöð með hámarks samnýtingu á dýrum framleiðsluþáttum. Þar skipta prentun og dreifing mestu, en það eru tækifæri til hagræðingar með samnýtingu fjölda annarra rekstrarliða.“
Ari Edwald, forstjóri 365 hf., sagði að kaupin væru mikilvægt skref í að laga fjölmiðlarekstur að þeim aðstæðum sem væru á markaðnum.
„365 mun áfram taka þátt í blaðaútgáfu í gegnum þátttöku sína í Árvakri og jafnframt styrkir þessi breyting 365 og gerir því fært að þjóna neytendum enn betur á öðrum sviðum fjölmiðlunar þar sem einkafyrirtæki glíma við mjög ósanngjörn samkeppnisskilyrði og ríkisstyrktan keppinaut.“
Ráðgjafi Árvakurs í þessum viðskiptum var Straumur fjárfestingarbanki og ráðgjafi 365 var Glitnir banki."