Ríkisstjórnin ber höfuðábyrgð

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, segir að vissulega beri Seðlabankinn ábyrgð á þeirri stöðu sem nú sé komin upp í íslensku efnahagslífi. „En það gera fleiri og fyrst og fremst ríkisstjórn Íslands,“ segir Steingrímur. Seðlabankinn starfi á grundvelli samstarfsyfirlýsingar Seðlabanka og ríkisstjórnar og á grundvelli laga frá Alþingi. Fleiri í stjórnkerfinu en Seðlabankinn þurfi að horfast í augu við sína frammistöðu og megi t.d. nefna Fjármálaeftirlitið.

Steingrímur segist horfa á málin heildstætt. „Ég tek ekki þátt í því að ætla að fara að tína einn út úr og gera hann að allsherjarsökudólgi fyrir hina. Að mínu mati liggur ábyrgðin síðustu daga og vikur fyrst og fremst hjá ríkisstjórn.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, segir að ef menn meti það svo að seðlabankastjóri hafi talað óvarlega í Kastljósi Sjónvarpsins á þriðjudagskvöldið og valdið Íslandi m.a. þeim viðbrögðum sem urðu í Bretlandi, sé það mjög alvarlegur hlutur. Davíð hafi verið „glannalegur þegar hann talaði um erlendu fjárfestingarnar. Þetta fer allt til útlanda jafnóðum sem íslenskir ráðamenn segja hér heima í þessari viðkvæmu stöðu“. Davíð sé í forsvari fyrir Seðlabankann en líta megi svo á að hann tali einnig fyrir hönd hinna bankastjóranna í Seðlabankanum.

„Ég held að það sé best að spara allar nornaveiðar og átök við þessar aðstæður,“ sagði Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins. „Það má gagnrýna Seðlabankann fyrir ýmsa hluti í peningastefnunni. Ég hef gagnrýnt stýrivexti og gengisskráningu en ríkisstjórnin hefur varið það allt saman í þinginu. Efnahagsstefna þjóðarinnar er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og peningastefnan er það einnig. Þess vegna tel ég, ekki síst þegar það er innan stjórnarflokkanna, að slíkar ásakanir sem nú ganga yfir séu óheppilegar fyrir Ísland við þessar aðstæður. Ég ætla engan dóm að fella á þessu stigi um seðlabankastjórana þrjá.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert