Bretar knésettu stærsta fyrirtæki Íslendinga með valdníðslu

Frá flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag.
Frá flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag. mbl.is/GSH

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, var harðorður í garð breskra stjórnvalda á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í dag. Sagði hann að bresk stjórnvöld hefðu með valdníðslu knésett stærsta fyrirtæki Íslendinga í vikunni og Ísland hljóti að skoða það í fullri alvöru að leita réttar síns vegna þessa.

Geir sagði að framganga Breta í vikunni hefði verið fullkomlega óforsvaranleg þótt eðlilegt sé að ríki reyni að verja hagsmuni sína.

„Ég ætla ekki að reyna að leyna undrun minni og vonbrigðum þegar í ljós kom að breska ríkið hefði beitt lögum um varnir gegn hryðjuverkum gegn íslenskum fyrirtækjum þar í landi. Reyndar lögum, sem voru mjög umdeild þegar þau voru sett vegna þess að menn óttuðust að gripið yrði til þeirra af öðru tilefni en til varnar hryðjuverkum. Má vera, að nú hafi komið í ljós, að nokkuð var til í þeirri gagnrýni.

Þessar aðgerðir ásamt yfirlýsingum breska forsætisráðherrans, sem ég hef raunar átt prýðileg samskipti við, yfirlýsingar hans um vanskil og hugsanlegt þjóðargjaldþrot Íslendinga, má í raun túlka sem aðför að hagsmunum íslensku þjóðarinnar þegar horft er til þess aflsmunar, sem er á þessum tveimur ríkjum," sagði Geir.

Hann bætti við, að þótt breska ríkisstjórnin hafi talið sig eiga rétt á hendur íslenska ríkinu vegna ábyrgðar og uppgjörs á einhverjum bankareikningum þá hafi aðgerðir breskra ráðamanna verið fullkomlega úr öllu samhengi.

„Við hvorki getum né munum, Íslendingar, sætta okkur við það, að vera flokkaðir sem hryðjuverkamenn af hálfu breska ríkisins. Ég spurði breska fjármálaráðherrann í samtali hvort þeim væri alvara með þessu sæmdarheiti, sem þeir hefðu valið okkur, og hann kvað það nú ekki vera. En að ganga svona fram gagnvart lítilli vinaþjóð á erfiðum tímum er hvorki sæmandi né siðlegt," sagði Geir.

Hann sagði að eftir skýr og afdráttarlaus mótmæli Íslendinga hefðu bresk stjórnvöld dregið nokkuð í land og unnið væri að því að koma samskiptum ríkjanna í eðlilegt horf.  

„En eftir stendur, að bresk yfirvöld hafa hugsanlega valdið gríðarmiklu tjóni með þessu ruddalega framferði, meðal annars að hafa með  valdníðslu knésett stærsta fyrirtæki Íslendinga í vikunni. Við hljótum að skoða það í fullri alvöru að leita réttar okkar vegna þessara misgjörða," sagði Geir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka