Eftir Pétur Blöndal
Ekki hefur verið mikil ásókn í geðdeild Landspítalans undanfarna daga, að sögn Elsu Báru Traustadóttur sálfræðings, þó að einn og einn komi með áhyggjur vegna erfiðrar stöðu. „Það er engin holskefla, enda er fólk úrræðagott og kann ýmis bjargráð. Flestir hafa mætt áföllum fyrr í lífinu og kunna að takast á við erfiðleika. Ég á alveg eins von á því að afleiðingarnar komi ekki strax fram, en þær geta komið fram seinna, jafnvel þegar allt er orðið gott aftur.“
Ef fólk finnur fyrir vonleysi og tilgangsleysi, segir Elsa í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins að það eigi óhikað að ræða við fólkið í kringum sig, fjölskyldu, vini eða leita til heilbrigðiskerfisins. „Það er merkið um að við eigum að sækja okkur stuðning.“
Mikilvægast er að fólk haldi sama lífsmynstri, einkum svefnvenjum. „Svo þarf fólk að borða reglulega, jafnvel þó að það hafi ekki matarlyst, og hafa smábita við höndina, sem gefa næringu. Það eykur kvíða og depurð ef mataræðinu er ekki sinnt.“
Það skiptir máli að vera í tengslum við fólkið sitt, vera með því og tala við það. „Og fólk á hreyfa sig, fara í stutta göngutúra og synda. Þó ekki væri nema að koma blóðinu á hreyfingu og fá ferskt loft.“
Og ekki má gleyma björtum hliðum tilverunnar. „Fólk
er upptekið af því sem farið hefur úrskeiðis, en verum meðvituð um allt sem við
höfum, hugum að heilsunni og okkar nánustu og áttum okkur á því að við höfum
þak yfir höfuðið og munum ekki deyja
úr hungri á Íslandi. Margir úti í heimi eru verr staddir. Og Íslendingar hafa
lifað miklu verri tíma en þetta, móðuharðindin og plágur; konur ólu fimmtán
börn og komu aðeins fjórum á legg – og það fólk er lifandi! Við eigum að bera
virðingu fyrir því.“