Eftir Agnesi Bragadóttur
Geir H. Haarde forsætisráðherra útilokar ekki að ríkið höfði mál á hendur breska ríkinu, fyrir að hafa keyrt Kaupþing Singer & Friedlander í þrot, með því að ráðast inn í bankann. „Ég tel að á síðustu metrunum hafi það verið aðgerðir breska fjármálaeftirlitsins sem urðu þessum banka að falli, því miður,“ segir Geir í samtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins.
Fram kemur í máli forsætisráðherra að hann telur að gera þurfi gagngerar breytingar á ýmsum reglum viðskiptalífsins og setja þurfi mjög skýrar reglur um eignarhald og krosseignarhald. Reglurnar þurfi að vera hnitmiðaðar og veita viðskiptalífinu það aðhald sem nauðsyn krefji.
Geir telur einnig að herða beri viðurlög við brotum, sem Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið komist á snoðir um. Hann segir að nauðsynlegt sé að farið verði ofan í saumana á bankamálum undanfarinna ára. Komi fram í slíkri rannsókn að menn hafim gerst brotlegir við lög, þurfi viðkomandi að sæta ábyrgð.