Samkvæmt upplýsingum frá Vatnamælingum er hlaup hafið í Skaftá og gera má ráð fyrir að hlaupið verði í stærra lagi, að sögn Almannavarna.
Nú vex hratt í ánni við Sveinstind og gera má ráð fyrir vatnavöxtum í byggð seinna í dag eða kvöld. Fólki er ráðlagt að vera ekki nálægt upptökum Skaftár vegna brennisteinsmengunar. Upptök Skaftár eru úr Skaftárjökli í Vatnajökli austan við Langasjó.
Ef verulega vex í ánni er hætta á að vatn flæði yfir veginn við Hólaskjól rétt við Eldgjá á Nyrðra fjallabaki og ef til vill víðar. Náið er fylgst með framgangi hlaupsins.
„Það vex mjög hratt í ánni,“ sagði Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is. „Fulltrúar Vatnamælinga fóru í flug til að kanna aðstæður en við höfum ekki fengið upplýsingar frá þeim ennþá.“ Hann bætti við að gert væri ráð fyrir því að vatnavextir hæfust í grennd við Kirkjubæjarklaustur í kvöld.