Eftir Guðmund Sv. Hermannsson
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í dag, að með aðgerðunum, sem stjórnvöld gripu til í byrjun vikunnar, hafi skapast grundvöllur til að snúa vörn í sókn. En þótt mesta hættan væri þannig liðin hjá væru Íslendingar ekki komnir út úr storminum og muni áfram sigla úfinn sjó í einhvern tíma.
„Það er sameiginlegt verkefni stjórnvalda, Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins, aðila vinnumarkaðarins, bankanna og fleiri aðila að koma í veg fyrir að hjól atvinnulífsins stöðvist. Að því er nú unnið hörðum höndum og ég er bjartsýnn á að sú vinna skili góðum árangri," sagði Geir.