Mjög vongóður um lausnir

Breskir og íslenskir embættismenn komu saman til fundar í morgun.
Breskir og íslenskir embættismenn komu saman til fundar í morgun. mbl.is/Kristinn

Össur Skarphéðinsson, starfandi utanríkisráðherra, var mjög ánægður með útkomuna af fundi með hollensku sendinefndinni sem kom til landsins á föstudag vegna viðræðna um íslenska innlánsreikninga í Hollandi.

„Utanríkisráðuneytið hefur leitt þessar viðræður og á þessari stundu er hægt að segja að þær hafi gengið ákaflega vel,“ sagði Össur um hádegið í dag. „Ég tel að í sjónmáli sé lausn sem byggist á hugmynd sem var þróuð hér síðustu daga af nokkrum ráðherrum, sérfræðingum og ráðgjöfum sem kallaðir voru til aðstoðar,“ sagði Össur og sagði þá lausn verða kynnta innan tíðar.

„Ég er mjög vongóður um að sú leið sem við höfum ákveðið í þessu máli geti leitt til lausnar á útistandandi vanda sem við eigum í vegna innlánsreikninga hjá ýmsum þjóðum.“

Mjög ákveðnir en sanngjarnir

Össur sagði hollensku sendinefndina hafa verið mjög ákveðna á fundinum og þekkt málið til þrautar. „En þeir voru líka sanngjarnir að því leyti til að þeir vildu aðstoða við að finna lausn og buðu upp á skapandi lausnir,“ sagði Össur.

Hann sagði að Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra mundi um helgina eiga frumkvæði að því að tala símleiðis við 4-5 viðskiptaráðherra annarra landa vegna íslenskra innlánsreikninga þar í löndum. „Ég vona því að bak helgi verði búið að leiða í jörð obbann af þeim erfiðu diplómatísku vandamálum sem hafa tengst þessum innlánsreikningum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert