Tár felld á flokksráðsfundi

Frá flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í dag.
Frá flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í Valhöll í dag. mbl.is/Kristinn

Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins fyrr í dag var dramatískur og kom þar fram mikill stuðningur við Geir H. Haarde forsætisráðherra, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Fundinum var lokað fyrir fjölmiðlum eftir að forsætisráðherra hafði haldið ræðu sína.

Fundarmenn voru sem höggdofa eftir að Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri flokksins og fulltrúi í stjórn Landsbankans, sem vikið var frá í vikunni, hafði haldið ræðu þar sem hann frábað sér ummæli Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra um „óreiðumenn" í bankakerfinu. Kjartan nefndi Davíð ekki á nafn en fáum duldist hvert ummælunum var beint, að sögn nokkurra fundarmanna.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins fór Kjartan rólega og yfirvegað yfir ýmis mál. Hann upplýsti meðal annars að hann hefði tapað stærstum hluta eigna sinna í bankahruninu. Hins vegar hefði hann, um það leyti sem hlutabréfin byrjuðu að lækka, eignast lítinn dreng. Nú hygðist hann á ný beita sér fyrir uppbyggingu íslensks samfélags, ekki síst í þágu sonar síns.

Kjartan sagði, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, að hann treysti engum manni betur fyrir framtíð sonar síns en Geir H. Haarde. Nú væru erfiðleikatímar og Ísland hefði einmitt leiðtogann sem það þyrfti, rólegan og yfirvegaðan mann sem ekki talaði í fyrirsögnum. Hins vegar þyrfti landið ekki leiðtoga, sem uppnefndi menn, léti mál snúast um sjálfan sig og kallaði fólk óreiðumenn.

Samkvæmt upplýsingum blaðsins setti fundarmenn hljóða. Þegar Geir og Kjartan féllust í faðma í lok ræðu þess síðarnefnda, felldu margir fundarmenn tár.

Davíð Oddsson seðlabankastjóri, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins að kvöldi 7. október: „Við erum að ákveða að við ætlum ekki að borga erlendar skuldir óreiðumanna." Ríkið myndi ekki borga skuldir bankanna „sem hafa farið dálítið gáleysislega."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert