Vilja helst búa áfram í húsinu

Erna Jóhannsdóttir í eldhúsi sínu, þar sem hljóðið heyrist jafnan …
Erna Jóhannsdóttir í eldhúsi sínu, þar sem hljóðið heyrist jafnan hæst. Hinir íbúar hússins, Sveinn Ingi Edvaldsson og Ingibjörg Bjarnadóttir, kíktu í kaffi til Ernu þegar blaðamaður staldraði við. mbl.is/Skapti

Enn hefur ekki fengist úr því skorið hvað veldur hljóðinu torkennilega sem angrar íbúa Richardshúss á Hjalteyri við Eyjafjörð. Fólkið í húsinu er orðið þreytt og vonast til þess að málið leysist sem fyrst. Það vill helst af öllu búa áfram í húsinu.

„Maður reynir að leiða hljóðið hjá sér svo maður verði ekki brjálaður, en það er erfitt; maður er alltaf með hljóðið í undirmeðvitundinni,“ sagði Ingibjörg Bjarnadóttir þegar blaðamaður kom í heimsókn. Ingibjörg og Sveinn Ingi, sem búa í suðurenda hússins, kíktu þá í kaffi til Ernu Jóhannsdóttur í norðurendanum.

„Við getum í raun ekkert gert annað en bíða. En við yrðum ekkert sátt við að þurfa að hlaupa héðan,“ sagði Sveinn Ingi.

Þau eru öll sammála um að ákaflega gott sé að búa á Hjalteyri. „Við vonum að komist verði að því hvaðan þetta hljóð kemur og að hægt sé að stoppa það þannig að við getum verið hér áfram,“ sagði Sveinn.

Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra hyggst úrskurða húsið óíbúðarhæft en það verður ekki gert formlega fyrr en að áliðnum tíma sem sveitarstjórn og íbúar hafa til þess að gera athugsemdir við niðurstöðuna.

Hljóðið heyrðist mjög lágt á meðan blaðamaður staldraði við en Valdimar Brynjólfsson heilbrigðisfulltrúi var einn sá fyrsti utan fjölskyldunnar sem heyrði það vel. „Ég er alveg klár á því að ég vildi ekki búa við þessar aðstæður,“ sagði hann við Morgunblaðið.

Mjög mismunandi er hve lengi hljóðið angrar íbúana á degi hverjum. Stundum mjög stutt en suma daga klukkustundum saman stanslaust. Þær Erna og Ingibjörg lýsa því eins og hávaða í þvottavél. Og málið snýst ekki um það hvort hann blási úti eða ekki. „Það skiptir engu máli hvernig veðrið er; hvort það er sunnanátt eða að norðan, logn, 20 stigi hiti eða frost,“ sagði Erna.

Ekki hefur enn fengist niðurstaða úr rannsóknum sem gerðar voru með jarðskjálftamælum í sumar, en íbúarnir bíða spenntir.

Ýmsar skemmtilegar kenningar eru uppi um ástæður hljóðsins. Íbúarnir hafa tengt það borholu Norðurorku í nágrenninu; segjast fyrst hafa heyrt hljóðið eftir að farið var að dæla úr holunni af meira krafti en áður, fyrir um það bil ári, en fyrirtækið þvertekur fyrir að það sé ástæðan. „Um daginn hringdi maður sem sagðist hafa heyrt hljóðið í úvarpinu, og sagði að þetta væri sama tíðni og kafbátarnir í Múrmansk notuðu! Það er líklega sérkennilegasta kenningin,“ sagði Erna. „Sumir segja að þetta geti stafað af vatnslögnum, sjónvarpsloftneti, leiðslum í veggjum, en það er búið að kanna þetta allt fram og til baka. Allt nema kafbátana...“

Útgerðarfyrirtæki Thors Jensen, Kveldúlfur, lét byggja húsið. Það er kennt …
Útgerðarfyrirtæki Thors Jensen, Kveldúlfur, lét byggja húsið. Það er kennt við son hans, Richard, sem var þar gjarnan að sumarlagi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert