Vinstrihreyfingin - grænt framboð hélt í gær sameiginlegan fund stjórnar, þingflokks og flokksráðs. Þar fór samkvæmt tilkynningu frá flokknum fram mikil hugmyndafræðileg umræða og vangaveltur um næstu skref í því ástandi sem hefur skapast eftir óhefta markaðsvæðingu síðustu ára.
Ein ályktun var samþykkt á fundinum og er hún svohljóðandi:
Sveitarfélögin - grundvöllur samfélagsins
„Í því uppnámi sem skapast hefur við hrun bankanna á Íslandi er hlutverk sveitarfélaganna enn mikilvægara en ella. Sveitarfélögin standa vörð um grunnþjónustu við landsmenn og eru jafnframt ein meginstoð samfélagsins. Nú er algjört forgangsmál að tryggja stöðu sveitarfélaganna til að almenningur geti treyst á þá velferðarþjónustu sem þau veita. Starfsfólk sveitarfélaganna sinnir mikilvægum störfum við mjög krefjandi aðstæður og er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að það njóti góðra starfsskilyrða. Hagur barna og ungmenna er sérstakt viðfangsefni sveitarfélaganna og ætti alls staðar að njóta sérstakrar áherslu.
Til að ríkisstjórnin geti staðið við fyrirheit sín um að gætt verði að hagsmunum almennings í því ástandi sem nú er uppi þarf að eiga öflugt samráð við sveitarfélögin og tryggja þeim rekstrargrundvöll. Í því efni þarf sérstaklega að styrkja og efla velferðarþjónustuna og skólakerfið og tryggja samfélagslegt eignarhald á grunnstoðum þjóðfélagsins. Þjóðin þarf á því að halda."