Töluvert af síld á Breiðasundi

Síld veiðist nú á Breiðafirði innanverðum.
Síld veiðist nú á Breiðafirði innanverðum. mbl.is/Gunnlaugur Árnason

Mikil síld er á Breiðasundi innan við Stykkishólm og í dag hafa tveir síldarbátar verið þar á veiðum, Birtingur NK og Ásgrímur Halldórsson SF. 

Í nóvembermánuði í fyrra blasti við Hólmurum óvenjuleg sjón þegar stórir síldarbátar sigldu framhjá Stykkishólmi inn á Breiðasund til síldveiða. Þar var að finna mikið magn af síld og skipin veiddu vel. Nú virðist sama sagan að vera endurtaka sig.

Birtingur fékk 200 tonn í fyrsta kasti í dag, en reif nótina og gat því ekki haldið áfram veiðum. Að sögn Ægis Birgissonar skipstjóra á Ásgrími Halldórssyni er töluvert af síld á Breiðasundi.

Ásgrímur Halldórsson kom á miðin um kl 15 í dag og voru þeir stuttu síðar farnir að dæla úr nótinni. Ægir segir að hann hafi fengið gott kast af stórri og fallegri síld. Meðalþyngd síldarinnar er um 300 grömm. Þetta er fínt síld sem fer öll í frystingu

Afla beggja skipanna verður landað á Hornafirði, en þangað er langt að sigla eða 300 mílur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert