Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson mun á næstu dögum heimsækja vinnustaði, skóla, samfélagsstofnanir, byggðarlög og hjálparmiðstöðvar. Vettvangsheimsóknirnar eru undir yfirskriftinni „Treystum undirstöðurnar – Stöndum saman“ og hefjast á morgun, mánudaginn 13. október.
Í heimsóknunum verður lögð áhersla á samræður um hvernig Íslendingar geti þrátt fyrir hina miklu erfiðleika sem nú blasa við treyst undirstöður efnahagslífs og samfélags, sótt fram til nýrra og betri tíma, nýtt margvíslegar auðlindir landsins og fjölþættan mannauð sem þjóðin býr yfir. Mikilvægt er að efla samstöðu og gagnkvæman stuðning landsmanna allra, bjartsýni og sóknarhug, samkvæmt fréttatilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands.