Meiri líkur en minni á láni

Árni M. Mathiesen.
Árni M. Mathiesen.

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra hefur fundað stíft með fulltrúum AlÞjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) í Washington í dag. Samkvæmt upplýsingum mbl.is eru taldar meiri líkur en minni á því að íslenska ríkið muni óska eftir láni hjá sjóðnum ef skilmálarnir reynast ásættanlegir.

Samkvæmt heimildum mbl.is er ekki enn orðið ljóst hvaða skilyrði sjóðurinn mun setja fyrir lánveitingu til Íslands, verði eftir henni leitað með formlegum hætti.

Nú er verið að fara yfir það hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hvaða skilmálar og skilyrði verði sett fyrir láni til Íslands ef af því verður. Það mun þó liggja ljóst fyrir að taki Ísland lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þá muni sjóðurinn ekki setja sömu skilyrði og við lánveitingar til þróunarlanda. Tekið verður tillit til þess að Ísland sé þróað vestrænt ríki með þróað hagkerfi.

Nokkrir fulltrúir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins munu hafa lýst áhyggjum sínum við Árna vegna hugsanlegrar lántöku íslenska ríkisins hjá Rússum.

Vinnu upplýsingateymis Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem kom hingað á dögunum er ekki lokið. Talið er að vænta megi frekari upplýsinga um mögulega lántöku Íslands hjá sjóðnum þegar skýrsla teymisins liggur fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert