Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir á bloggvef sínum að hann vilji fá meiri upplýsingar um lán Rússa til Íslendinga enda gæti mikillar tortryggni í erlendum fjölmiðlum vegna þessa láns.
„Ef það er eitthvað sem við ættum að læra af ástandinu núna, þá er það að skella ekki skollaeyrum við því sem útlendingar hafa að segja um stöðu mála hjá okkur. Við hefðum betur hlustað þegar hver skýrslan á fætur annarri sagði að útrásin stæði á brauðfótum," segir Gísli Marteinn.
„Í næstu viku hljótum við að fá skýrari fréttir af því hvaða skilyrði Rússarnir setja fyrir láninu og á hvað samninganefnd okkar fellst. Gegnsæið verður að vera algert. Fyrir Rússa er það nefnilega meiriháttar sigur að koma vesturlandaþjóð til bjargar, að ekki sé talað um Nató-þjóð. Þótt staða okkar sé auðvitað hörmuleg verðum við að fara varlega í allar skuldbindingar inn í framtíðina," segir ennfremur á bloggvef Gísla Marteins.
Vefur Gísla Marteins Baldurssonar