Ísland enn í kastljósinu

mbl.is

Ísland er enn í sviðsljósi breskra fjöl­miðla í dag. Í Sunday Times er birt ít­ar­leg grein þar sem farið er yfir stöðu mála og því meðal ann­ars lýst hvernig al­sæl­ir bresk­ir ferðamenn vappa um Lauga­veg­inn með krón­urn­ar sín­ar. Það séu ein­ung­is út­lend­ir ferðamenn sem brosa í Reykja­vík þessa dag­ana, borg þar sem fólk ekur um á jepp­um og sport­bíl­um.

Í grein Sunday Times er fjallað um Davíð Odds­son, seðlabanka­stjóra og það rakið að hann hafi ekki ein­ung­is verið stjórn­mála­maður um langa hríð held­ur einnig skáld. Seg­ir í grein­inni að ráðning Davíðs í Seðlabank­ann hafi valdið titr­ingi á sín­um tíma og marg­ir Íslend­ing­ar hafi efa­semd­ir um hvort rétt sé að vera með hann við stjórn­völ­inn í bank­an­um.

Haft er eft­ir Snjólfi Ólafs­syni, pró­fess­or við Há­skóla Íslands, að Davíð sé með sterka stjórn­mála­sýn  og marg­ir Íslend­ing­ar telji að hann sé helsta vanda­málið.

Í grein­inni er einnig fjallað um þá Björgólfs­feðga og hvernig þeir hafi efn­ast í Rússlandi og eins lýsa ýms­ir þeir sem hafa átt sam­skipti við Íslend­inga um kaup og sölu á fyr­ir­tækj­um í Bretlandi því hvernig ís­lensku banka­menn­irn­ir og fjár­fest­arn­ir hafi komið fyr­ir.

Eins er komið inn á viðvör­un­ar­orð  grein­ing­ar­deilda Merrill Lynch og Danske Bank árið 2006 og hvernig Íslend­ing­ar, svo sem sér­fræðing­ar bank­anna og fleiri brugðust við af heift og lýstu varn­ar­orðunum sem bulli og vit­leysu.

Íslensku bank­arn­ir hafi hins veg­ar lært á þessu og stofnað reikn­inga eins og Ices­a­ve,Kaupt­hing Edge og Her­ita­ble. Seg­ir í grein Sunday Times að það sé í raun at­hygl­is­vert hversu marg­ir bresk­ir spari­fjár­eig­end­ur hafi fallið fyr­ir gylli­boðum þess­ara banka því fjöl­marg­ir hafi varað við þessu. 

Í janú­ar hafi  Moo­dy’s lýst ís­lensku bönk­un­um sem brot­hætt­um og í rann­sókn sem Morg­an Stanley hafi birt kom í ljós að það voru 7,5 sinn­um meiri lík­ur á því að ís­lensku bank­arn­ir myndu hrynja held­ur en aðrir evr­ópsk­ir bank­ar af sömu stærð og þeir.

Úttekt Sunday Times á Íslandi í heild 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert