Íslenskar rjómapönnukökur á borðum SÞ

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna á fundi.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna á fundi. Reuters

Vangaveltur um áhrif fjármálakreppunnar á Íslandi og hruns íslensku bankanna á möguleika Íslands í kjörinu til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna á föstudag sjást nú í erlendum fjölmiðlum. Blaðið International Herald Tribune fjallar m.a. um málið í dag og segir að í síðustu viku hafi íslenskar rjómapönnukökur með berjasultu verið á borðum í matsal þingfulltrúa SÞ í New York. 

Myndu tvö borð hlaðin lostæti frá Íslandi sannfæra einhver af 192 aðildarríkjum SÞ um að  Ísland eigi skilið atkvæði þeirra á föstudag? spyr blaðið. „Þeir verða að reyna að sannfæra fólk með pönnukökum vegna þess að þeir eiga enga peninga eftir," hefur blaðið eftir evrópskum sendimanni, sem gengu framhjá borðunum.

Ísland keppir við Austurríki og Tyrkland um tvö sæti í öryggisráðinu.  International Herald Tribune segir að til að verðskulda slíkt sæti verði ríki að hafa áhuga á friðar- og öryggismálum, vinna að því að bæta umhverfið og draga úr fátækt. Síðan skaði ekki að halda góðar veislur. M.a. hafi Austurríkismenn nýlega haldið sérstaka SÞ tónleika í Carnegie Hall þar sem Sinfóníuhljómsveit Vínarborgar lék.

Framboð til öryggisráðsins eru tilkynnt með nærri áratugs fyrirvara og þau eru vel skipulögð. Óvæntir atburðir geta hins vegar haft sín áhrif og segir blaðið, að Ísland sé dæmi um það. Ísland hafi gengið í SÞ 1946 en það var ekki fyrr en árið 1998 sem það ákvað að bjóða sig fram í sæti Norðurlandanna í öryggisráðið. 

Hefur blaðið eftir Hjálmari W. Hannessyni, sendiherra Íslands hjá SÞ, að þegar þarna var komið hafi Ísland búið við fjárhagslegt öryggi og þegar landið hækkaði á lista yfir vel stæðar þjóðir hafi Íslendingar talið það vera skyldu sína að þjóna öðrum í öryggisráðinu. 

Nú hefur fjármálakreppan hins vegar skyndilega sett strik í reikninginn. International Herald Tribune hefur eftir Kristínu Árnasdóttur, sem hefur umsjón með framboði Íslands, að rætt hafi verið um það milli Íslands og Norðurlanda hvaða áhrif þessir atburðir muni hafa, hvort samkennd með Íslandi muni aukast eða efasemdir vakna.  

„Það er ekki aðeins Ísland sem er í efnahagslegu umróti heldur allur hinn vestræni heimur," segir Kristín.

Blaðið segir að það sé almenn skoðun á meðal þeirra, sem reyna að spá fyrir um úrslitin, að atburðirnir á Íslandi gætu orðið til þess að nokkur ríki skipti um skoðun en þar sem ljóst sé að kosningin verði jöfn gætu jafnvel nokkur atkvæði skipt sköpum.

Haft er eftir ónafngreindum afrískum sendimanni, að Íslendingar leggi sig svo fram við að róa alla, að sá grunur vakni að ekki sé allt með felldu. „Þeir gera of mikið úr málinu, enginn okkar skilur hvað er á seyði," segir hann.

Það er hins vegar ljóst að löndin tvö, sem Ísland keppir við, glíma einnig við vandamál. Í nýafstöðnum þingkosningum  í Austurríki fengu öfgaflokkar til hægri, andvígir innflytjendum, m.a. nærri þriðjung atkvæða. Þá eiga Tyrkir í baráttu við uppreisnarmenn Kúrda og hafa m.a. varpað sprengjum á íraskt landssvæði. 

Frétt International Herald Tribune

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert