Að minnsta kosti tíu bandarískir og breskir eftirlaunasjóðir og stofnanir sem áttu peninga inni á reikningum íslensku bankana hafa ráðið lögfræðinga til þess að reyna að endurheimta féð. Ætla lögmennirnir að koma til Íslands í vikunni og kanna stöðu umbjóðenda sinna.
Þetta kemur fram í frétt Independent í dag. Blaðið hefur eftir heimildum úr fjármálahverfi Lundúna að það sem íslensk stjórnvöld verði að gera sé að gleyma forgangsröðuninni „Ísland fyrst" og greiða til baka lán sem fengin hafi verið að láni í útlöndum og sparifé sem fast er inni á reikningum í íslenskum bönkum.