Gat sig hvergi hreyft

Ingólfsfjall
Ingólfsfjall mbl.is/Guðmundur Karl

Manni var bjargað úr sjálfheldu í Ingólfsfjalli í dag. Hann fór út af hefðbundinni leið og gat sig hvergi hreyft. Félagar úr Hjálparsveit Skáta í Hveragerði komu fyrst að manninum og hjálpuðu honum úr sjálfheldunni. 

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út í dag vegna manns sem var í sjálfheldu í Ingólfsfjalli, fyrir ofan sumarbústað sem stendur í klettum suðaustan megin í fjallinu. Maðurinn, sem var á hefðbundinni leið upp fjallið, fór af henni og í klettabelti og þegar hann var kominn efst lenti hann í sjálfheldu og gat sig hvergi hreyft, samkvæmt frétt frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Meðlimir þriggja björgunarsveita fóru á staðinn. Gekk einn hópur upp fjallið og ákveðið var að annar hópur færi akandi á fjallið ef koma þyrfti að manninum ofanfrá.

Hjálparsveit Skáta í Hveragerði fór af stað neðanfrá og náði fyrst til mannsins. Hún kom manninum til bjargar og niður af fjallinu um klukkustund eftir að útkall barst. Hann var aðstoðaður við að komast niður á jafnsléttu. Ekkert amaði að honum en hann var kaldur og þreyttur eftir ævintýrið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka