Flóðið í Skaftá vex enn og segir Oddur Sigurðsson jarðfræðingur að það sé nú komið upp í 1350 rúmmetra á sekúndu uppi við Sveinstind. „En það er trúlegast vanmat því þegar svona mikið er í ánni fer að renna út úr henni og framhjá mælinum," sagði Oddur við mbl.is.
„Ég gæti alveg eins átt von á því að þetta fari í aðrar ár, eins og Hverfisfljót og jafnvel Tungná en það verður aldrei mikið sem fer í þær ár," sagði Oddur.
Með stærri hlaupum
„Þetta er að verða með þeim stærri (hlaupum) og við áttum alveg eins von á því. Það hefur liðið svo langur tími og í biðtímanum eru þrjú sumur líka sem hvert um sig bætir við talsverðu leysingavatni," sagði Oddur en síðast hljóp í apríl 2006.
„En hvort það verður það stærsta er ekki gott að segja," sagði Oddur. En til þess að slá metið þarf hlaupið að fara yfir 1500 rúmmetra á sekúndu.
Oddur sagði að mjög líklegt væri að hámarki hlaupsins yrði náð í dag sem þýðir að um átta tímum síðar, einhvern tímann í kvöld mun hámarksflæðið ná byggð.