Varðskipið Týr er komið með færeyska togarann Rasmus Effersöe TG-2 til Reykjavíkur. Vél togarans bilaði nálægt Grænlandsströnd og fór varðskipið langt norður í höf til að sækja togarann.
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst beiðni um aðstoð frá togaranum síðastliðið mánudagskvöld. Hann var þá 9-10 sjómílur undan Austur-Grænlandi og um 550 sjómílur norður af Akureyri.
Togarinn Rasmus Effersöe er 479 brúttólestir að stærð og 42,5 metra langur. Togarinn var á svæðinu til aðstoðar rússneska rannsóknaskipinu GEO ARCTIC og beið rússneska skipið hjá togaranum eftir komu varðskipsins.