Richard Portes, prófessor við London Business School og einn höfunda skýrslu Viðskiptaráðs í fyrra um íslenskt efnahagslíf, fjallar um hrun íslensku bankanna á vefsíðunni FT.com í gær. Portes telur að „hneykslanleg mistök“ hafi verið gerð í því hvernig tekið var á málum þegar erfiðleikarnir knúðu dyra.
Hann gagnrýnir m.a. Davíð Oddsson seðlabankastjóra fyrir hvernig hann tók á málum Glitnis. Portes telur að ákvörðun seðlabankastjórans hafi endurspeglað pólitík, tæknilega vanhæfni og vanþekkingu á mörkuðum. Auk þess hafi yfirlýsingar hans í kjölfarið aukið mjög á óróleikann. Portes rekur síðan hvernig seig á ógæfuhliðina hjá íslenska bankakerfinu með lækkun lánshæfismats ríkisins, lokun lánalína og öru gengisfalli krónunnar.
Portes segir að orð Davíðs sl. þriðjudag [í Kastljósi] hafi verið pólitík til heimabrúks. Illa ígrunduð viðbrögð Breta hafi verið af sama meiði. Hann telur að ýmsa lærdóma megi draga af málinu. M.a. að stjórnmálamenn ættu ekki að verða seðlabankastjórar og telur Portes að Davíð ætti þegar að segja af sér.
Portes segir að þótt Íslendingar þurfi að búa við þrengri kost um hríð þá muni Ísland rétta úr kútnum.