Engin annarleg skil

Benedikt Ásgeirsson.
Benedikt Ásgeirsson. AP

Von er á íslenskum embættismönnum til Moskvu síðar í dag en þar hefjast á morgun viðræður við rússneska embættismenn um 4 milljarða evra lán sem rætt er um að Íslendingar fái hjá Rússum. Gert er ráð fyrir að viðræðurnar standi í þrjá daga.

Lánsáformunum hefur verið mætt með tortryggni og margir telja að Rússar sjái sér með þessu leik á borði að auka áhrif sín í NATO-ríki. En Benedikt Ásgeirsson, sendiherra Íslands í Moskvu, fullyrðir á fréttavef Moscow Times að engin annarleg sjónarmið liggi á bakvið og um sé að ræða mál viðskiptalegs eðlis.

„Ég veit ekki til þess að neitt hangi á spýtunni," segir hann við blaðið.

Benedikt segir, að líta megi á tilboð stjórnvalda í Moskvu sem traustyfirlýsingu við íslenska hagkerfið og framlag Rússa til að reyna að koma böndum á fjármálakreppuna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert