„Það eru margir skuldarar komnir fram á hengibrún og við þurfum að skoða hvort ekki er hægt að fara í mildari aðgerðir gagnvart þeim. Þetta er verið að skoða hjá Íbúðalánasjóði – hvort ekki er hægt að rýmka ákvæðin sem gilda um vanskilaferil og gjaldþrot hjá þeim sem eru með sín lán þar.
Þá eru einnig uppi á borðinu ákveðnar hugmyndir varðandi rýmingarfresti á uppboðsíbúðum og fresti sem gilda vegna greiðsluáskorunar. Það þarf að milda þessar innheimtuaðgerðir sem gilda í vanskilum,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra. Hún vonar að strax í næstu viku verði kynntar ráðstafanir til að rýmka heimildir gagnvart þeim sem eru með sín húsnæðislán hjá Íbúðalánasjóði.
Þá segir Jóhanna að um aðrar lánastofnanir en Íbúðalánasjóð gildi gjaldþrotaskiptalög og hún vilji hvetja til þess að þau verði endurskoðuð með það að leiðarljósi að hægt verði að fara mildari höndum um skuldarana. Hún telur jafnframt mikilvægt að leggja fyrir þingið lagafrumvarp, sem verið hefur í vinnslu hjá dómsmálaráðuneyti og viðskiptaráðuneyti, um greiðsluaðlögun.
„Slík lög eru í gildi á hinum Norðurlöndunum og eru til þess að hjálpa fólki sem er komið í gjaldþrot. Þau gera það að verkum að hægt er að semja við fólk, annaðhvort með frjálsri aðlögun sem lánastofnanir geta þá tekið upp, eða með þvingaðri greiðsluaðlögun sem myndi fela í sér að fólk yrði sett í ákveðið aðlögunarferli í nokkur ár til að ná sér upp úr skuldunum. Þetta fyrirkomulag yrði betra fyrir skuldara og lánardrottna.“
Ráðherra telur ennfremur mikilvægt að lækka stýrivexti eins fljótt og auðið er enda myndi slíkt lækka dráttarvexti fólks. „Ég held það séu hróp og áköll í samfélaginu á stýrivaxtalækkun. Þeir eru að ganga frá einstaklingum og fyrirtækjum. Ég trúi ekki öðru en nú vindi menn sér í það.“
Hún telur þó ráðlegra að aðstoða fólk með vaxtabótum en afnema verðtrygginguna. „Við afnemum ekki verðtryggingu bara með einu pennastriki. Þá værum við að fara í himinhæðir með vextina. Frekar ætti að skoða vaxtabótakerfið. En auðvitað þarf að endurskoða þessi verðtryggingarákvæði almennt sem væri þá hluti af því að endurskoða allt okkar fjármálakerfi, sem ég held að sé óumflýjanlegt.“