Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor á Bifröst, skrifar grein í breska blaðið Guardian í dag, þar sem hann segir m.a. að Bretar hafi fallið fyrir grimmúðlegu og úthugsuðu auglýsingabragði Gordons Browns, forsætisráðherra Bretlands, sem hafi haft það eina markmið með árásum sínum á íslenskan almenning að lengja aumt pólitískt líft sitt um einn dag. Fyrir það gjaldi Íslendingar dýru verði.
Eiríkur segist hafa fengið upphringingu frá vini sínum í Ljubljana í Slóveníu, sem spurði hvort hann og fjölskylda hans hefðu mat og húsaskjól úr því þau hefðu misst atvinnuna. „Fyrst skildi ég ekki um hvað hann var að tala: lífið gengur hér að mestu sinn vanagang - en loks rann það upp fyrir mér að hann hafði verið að lesa fréttir breskra fjölmiðla," segir Eiríkur.
Hann fer síðan yfir málið og segir að útrásarkaupsýslumennirnir, sem komu frá Íslandi og hófu að dreifa lánsfé um Bretland og Evrópu, tengist lítið venjulegu vinnandi fólki á Íslandi.
„En af einhverjum undarlegum ástæðum telja breskir fjölmiðlar að þetta sé allt okkur að kenna... Auðvitað erum við reið. Við erum reið þessum ófyrirleitnu kaupsýslujöfrum fyrir að spila með mannorð okkar, það dýrmætasta sem smáþjóð á. En venjulegir Íslendingar bera ekki frekar ábyrgð á áhættusæknum kaupsýslumönnum, sem bera íslenskt vegabréf, en íbúar í Norður-Lundúnum bera ábyrgð á sjálfseyðingarhvöt hinnar hæfileikaríku Amy Winehouse. Og þótt flest okkar njóti enn breskra hluta erum æf af reiði út í bresku ríkisstjórnina. Þegar Brown beitti hryðjuverkalögum til að fella stærsta einkafyrirtæki Íslands, Kaupþing, þá tókst honum næstum að láta okkur fyrirgefa okkar eigin ríkisstjórn, sem brást ekki við þegar vandamálin fóru að sjást út við sjóndeildarhring."