„Annað hvort pökkum við í vörn og hverfum aftur til þess tíma sem var fyrir 1994 eða við gerum þetta að upphafi nýrra tíma, sækjum ótrauð fram og búum til þær varnir fyrir íslenskan almenning og íslensk fyrirtæki sem við þurfum í upphafi 21. aldar.“ Þetta segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra í grein í Morgunblaðinu í dag.
„Mánudagurinn 29. september mun án efa lengi lifa með þjóðinni sem einn versti dagur í hennar seinni tíma sögu. Þetta var mánudagurinn þegar hrun fjármálakerfis þjóðarinnar hófst með falli Glitnis. Í kjölfarið féll þjóðbanki Íslendinga í meira en heila öld – Landsbanki Íslands – og loks varð flaggskip íslenskrar fjármálastarfsemi, Kaupþing, að játa sig sigrað eftir grófa árás af hálfu breskra stjórnvalda sem í raun neyddu stærsta fyrirtæki landsins í gjaldþrot.Tilviljanir höguðu því þannig að þennan sama mánudag gekkst ég undir skurðaðgerð í New York. Í aðgerðinni var fjarlægt æxli í heila sem hafði vaxið þar í nokkurn tíma án þess að valda mér nokkrum vandkvæðum en skyndilega gerði það vart við sig með svo óþyrmilegum hætti að ekki var um annað að ræða en fjarlægja það.
Ég kann í sjálfu sér ekkert fyrir mér í áfallahjálp annað en það sem ég lærði af henni mömmu í uppeldinu. Hún gat fjasað mikið út af smámunum en þegar hin stóru áföll riðu yfir gekk hún fumlaust og orðalaust til verks og gerði það sem þurfti að gera. Hún kenndi mér þá lexíu að það er ekki hægt að velja þær sendingar sem lífið færir manni en maður á alltaf val um hvernig maður bregst við þeim – jafnvel þó staðan sé þröng. Og því þrengri sem staðan er þeim mun meira máli skiptir að takast á við hana strax og af ábyrgð – staðráðin í að breyta henni sér í hag.
Hjól atvinnulífsins mega ekki stöðvast. Liður í því að halda þeim gangandi er að lækka stýrivexti Seðlabankans sem eru allt of háir miðað við þá staðreynd að engin lánastarfsemi fer nú fram í landinu. Efnahagslífið er að snöggkólna og mikilvægt að nota bæði stýrivextina og ríkisfjármálin til að örva gangvirkið. Þá er mikilvægt að þeir sem eiga eitthvert eigið fé noti það til fjárfestinga og framkvæmda því líklega hefur aldrei verið auðveldara að finna góð viðskiptatækifæri en einmitt núna. Stóra verkefnið á komandi mánuðum verður svo að standa vörð um hag heimilanna í landinu þannig að komið verði í veg fyrir fjöldagjaldþrot hjá íslenskum almenningi. Aðstoða þarf það fólk sem lendir í tímabundnum greiðsluerfiðleikum vegna hækkana á hefðbundnum íbúðalánum eða vegna atvinnumissis. Mikilvægt er að vinna aðgerðaáætlun um hvernig þetta verði best gert í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins.
Það á hins vegar við varðandi einstaklingana eins og fyrirtækin að það verður ekki öllum forðað frá þroti. Margir hafa farið mjög óvarlega í sínum fjármálum á undanförnum árum, tekið ómæld lán út á miklar tekjur og munu lenda í vandræðum þegar þeir verða fyrir tekjufalli. Þeir máttu hins vegar vita að það sem fer upp hefur tilhneigingu til að koma niður aftur. Miklu máli skiptir hins vegar hvernig þetta fólk tekst á við sín mál og að það muni að það á alltaf val í stöðunni. Því fyrr sem það hreinsar til í sínum fjármálum þeim mun líklegra er að það komist fljótt á góðan rekspöl aftur.
Þessar vikurnar er Ísland eins og lítil bátsskel sem hrekst um fyrir úfnu og opnu hafi alþjóðlegra fjármagnshreyfinga. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið var ákveðið að leggja út á þetta haf og taka þátt í frjálsu flæði fjármagnsins. Þessi ákvörðun leysti mikla krafta úr læðingi og skapaði forsendur fyrir öflugum fjármálafyrirtækjum á Íslandi sem á undanförnum árum hafa skapað bæði atvinnu og skatttekjur í landinu. Það gat hins vegar ekki gengið til lengdar að leggja út á opið haf á óvarinni bátsskel sem er ætluð til veiða á grunnslóð. Ísland þarf öflugra skip og meiri varnir ef það ætlar á annað borð að taka þátt í því fjórfrelsi sem fylgir samstarfinu í Evrópu.
Kostirnir í stöðunni eru því þessir. Annaðhvort pökkum við í vörn og hverfum aftur til þess tíma sem var fyrir 1994 eða við gerum þetta að upphafi nýrra tíma, sækjum ótrauð fram og búum til þær varnir fyrir íslenskan almenning og íslensk fyrirtæki sem við þurfum í upphafi 21. aldar. Þær varnir felast til skamms tíma í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og til lengri tíma í aðild að ESB, upptöku evru og bakstuðningi Evrópska seðlabankans. Eftir hildarleik síðari heimsstyrjaldarinnar stóðu íslenskir stjórnmálamenn andspænis þeirri áleitnu spurningu hvort Ísland gæti spjarað sig án formlegra bandamanna ef til átaka kæmi í heiminum. Niðurstaðan var að svo væri ekki og Ísland gekk bæði til liðs við hinar Sameinuðu þjóðir og NATO.
Nú stöndum við andspænis sambærilegri spurningu þó ógnirnar séu af efnahagslegum toga. Ég tel það mikinn ábyrgðarhlut af stjórnmálamönnum að telja sjálfum sér og öðrum trú um að við getum haldið áfram að senda fólk á bátsskeljum út á opið haf og sagt því að fiska. Það hefur þegar endað með ósköpum"
Höfundur er formaður Samfylkingarinnar.