Eftir fjögurra ára kaupæði þyrpast Íslendingar í stórmarkaði til þess að birgja sig upp af mat á sama tíma og nánast er lokað fyrir gjaldeyrisviðskipti við landið. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg í dag. Þar er haft eftir Jóhannesi Smára Ólafssyni, verslunarstjóra hjá Bónus, að salan hafi tvöfaldast síðustu vikuna en Bónus eigi til birgðir til tveggja vikna.
Segir í frétt Bloomberg að staðan á fjármálamörkuðum hafi þegar haft áhrif á fataverslanir á Íslandi og er haft eftir Ragnhildi Önnu Jónsdóttur, eiganda Next á Íslandi, að hún geti ekki lengur fengið gjaldeyri til þess að leysa vörur út og þrátt fyrir að hún gæti útvegað gjaldeyri þá væri gengið það óhagstætt að það hreinlega borgi sig ekki að leysa út vörur. Segir hún að þetta sé þriðja vikan í röð sem ekki sé hægt að leysa út vörur en yfirleitt fái verslunin sendingar til landsins einu sinni í viku.
Bloomberg hefur eftir Andrési Magnússyni, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu, að það sé enginn gjaldeyrir til í landinu til þess að flytja inn vörur. „Það eina sem hægt er að gera til þess að leysa þetta vandamál er að fá aðstoð frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum."Segir Andrés að þar sem fyrirtæki fái ekki gjaldeyri og rafrænar greiðslur þeirra til birgja í útlöndum fari ekki í gegn þá styttist í skort á vörum í landinu. Segir hann að búast megi við því að það gerist í lok vikunnar.
„Við erum að berjast við að halda efnahagslífinu gangandi klukkustund fyrir klukkustund. Það er gríðarlegt magn fjármuna sem bíður þess að komast úr landi."Knútur Signarsson, framkvæmdastjóri FÍS, segir að birgjar krefjist þess að innflytjendur greiði fyrirfram fyrir alla vöru sem send er til Íslands. Í venjulegu árferði fá þeir 30-90 daga greiðslufrest. „Margir þeirra biðja okkur um að staðgreiða áður en varan er send til Íslands,"segir Knútur. „Vegna ástandsins er Ísland orðið að landi sem enginn ber traust til."
Bogi Þór Siguroddsson, eigandi Johan Rönning, segir að hann hafi óskað eftir því við sína starfsmenn að flytja einungis nauðsynlega hluti inn til landsins. „Það er eiginlega nóg að berjast við fjármálakreppu svo ekki bætist við gjaldeyriskreppa. Því miður höfum við sýnt það að við ráðum ekki við ástandið sjálf."