Ólafur Ragnar: Ótrúleg ósanngirni breskra stjórnvalda

Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson. mbl.is/Ómar

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins í kvöld, að hrun íslensku bankanna hefði á síðustu stigum m.a. verið afleiðing af ótrúlegum málflutningi og ósanngirni breskra stjórnvalda. Ólafur sagði einnig að hann hefði vissulega stutt útrás íslenskra banka og fyrirtækja af kappi og hugsanlega hefði ýmislegt verið ofsagt í þeim efnum.

Helgi Seljan, fréttamaður, ræddi við Ólaf Ragnar og sagði m.a að margir teldu þörf á að kanna hvað hefði farið úrskeiðis og hverjum væri um að kenna. Ólafur Ragnar svaraði, að í landinu þyrfti að fara fram opin og heiðarleg og hispurslaus umræða sem allir ættu að taka þátt í og horfa í eigin barm, ekki síst þeir sem hefði verið falin ákveðin ábyrgð, hvort sem það væri á vettvangi stjórnkerfis eða atvinnulífs.

Studdi útrásina af kappi 

Ólafur Ragnar sagðist ekki vera hræddur við þá umræðu og vera meira en reiðubúinn til að ræða honum hefði orðið eitthvað á í þeirri vegferð, sem sjálfsagt hefði orðið.

„Ég studdi þessa viðleitni af mikilli atorku og oft á tíðum af kappi. Því mér fannst að útrásin fæli fyrst og fremst í sér tækifæri fyrir þúsundir af ungu fólki, sem hafði menntað sig vítt og breitt um veröldina til að gera Ísland að sínum vettvangi," sagði Ólafur Ragnar.

Hann sagði að þrátt fyrir erfiðleika bankanna stæði margt af þessu eftir og gæti verið grundvöllur fyrir nýja sókn. Hins vegar væri staðreyndin sú, að farið hefði saman á fáeinum dögum ótrúleg atburðarás, sem ætti sér að nokkru leyti rætur á heimavelli Íslands, en væri einnig afleiðing af alþjóðlegum hamförum.

„Því miður verður líka að segja það á lokasprettinum (var hún) einnig afleiðing af ótrúlegum málflutningi og ósanngirni breskra stjórnvalda. Þegar þetta allt fór saman á fáeinum dögum voru afleiðingarnar með þessum hætti," sagði Ólafur Ragnar.

Helgi spurði Ólaf Ragnar hvort hann hefði gert mistök með því að styðja jafn dyggilega og raun bar vitni við bakið á „útrásarvíkingunum". Ólafur Ragnar sagði, að  sjálfsagt væri ýmislegt ofsagt í þessum efnum. Það væri hins vegar einföldun að segja, að útrásin hafi verið verkefni fáeinna svokallaðra útrásarvíkinga. Mikill fjöldi fyrirtækja hefði sótt á ný mið. Þá hefði bankastarfsemin veitt miklum fjármunum inn í samfélagið og þau lífskjör, sem þorri manna hefði notið síðasta áratug hefðu m.a. verið í krafti þessa.

„Það má vera að í hugum einhverra hafi það skaðað embættið... Þá verð ég bæði að búa við það og vinna mig út úr því. Ég hef aldrei verið feiminn að horfast í augu við eigin mistök. Ég tel að það sé alrangt hjá þeim, sem  falinn er trúnaður af hálfu þjóðarinnar, og forsetaembættið er æðsti trúnaður sem geta falið nokkrum manni, að horfast ekki í augu við það sumt mætti fara á betri veg og stundum séu mistök gerð.

En ég er ennþá þeirrar skoðunar, líka í endurreisnarstarfinu og í því að styrkja orðspor Íslendinga í veröldinni og endurreisa það álit sem við höfum, þá sé forsetaembættið, ef rétt er á haldið, eitt af þeim tækjum, sem geta reynst vel í þeirri vinnu. Það er stundum eðli mitt að halda sterkar ræður... og það má vel vera að sumt í þeim málflutningi virki á of sterkan hátt í dag. En það breytir því ekki, sem er grundvallarskoðun mín, að án útrásar á hverjum tíma, þó margt í henni kunni að mistakast, mun Íslendingum ekki takast að byggja  þau lífskjör, sem duga þjóðinni," sagði Ólafur Ragnar Grímsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka