Samtök iðnaðarins skora á þá, sem standa fyrir verklegum framkvæmdum, að taka ekki skyndiákvarðanir um stöðvun framkvæmda eða frestun þeirra sem nú eru í burðarliðnum. Það geri illt verra við þær aðstæður sem nú ríki.
Í bréfi sem sent hefur verið til verkkaupa, ríkis, sveitarfélaga, stærri fyrirtækja og stofnana segir að ekki sé skynsamlegt að auka á óvissu og ýta undir óróa sem geti leitt til rekstrarstöðvunar fyrirtækja og uppsagna starfsfólks. Ábyrgð ríkis og sveitarfélaga sé mikil í þessum efnum.
Samstaða þurfi að vera um að samdráttur verði ekki meiri en efni standi til. Halda þurfi áfram þar til línur skýrist í efnahagsmálum þjóðarinnar og skýrara verði hvert stefni.