Í breskum fjölmiðlum í gær kom fram að samtök bæjar- og sveitarfélaga myndu funda með Sverri Hauki Gunnlaugssyni sendiherra íslands í London og mun sá fundur fara fram á næstu dögum. Fulltrúar bresku sveitafélagana hafa að sögn Sverris þegar fundað með fulltrúum Landsbankans og skilanefndarmönnum.
Sverrir Haukur sagði að einhverjir námsmenn í Bretlandi hafi verið svo illa staddir fjárhagslega að þeir hafi þurft að fá fyrirgreiðslu í sendiráðinu en tók fram að þessari þoku væri nú að létta að því er honum virtist.
Sverrir Haukur taldi nokkuð ljóst að um 40 íslendingar sem búsettir eru með fjölskyldur sínar munu missa vinnuna í London í kjölfar þessara hremminga.
Bauðst til að borga upp námslánið
„Hingað hringdi íslensk kona sem hefur búið hér um árabil og bauðst hún til að borga upp íslenska námslánið sitt að fullu til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar í þessum þrengingum íslensku þjóðarinnar," sagði Sverrir Haukur sem dæmi um jákvætt viðhorf sem honum mætti einnig í Bretlandi á þessum erfiðu tímum.