„Okkur vantar fólk á flesta vinnustaði í bænum. Það vantar hjúkrunarfræðing, æskulýðs- og menningarfulltrúa og reyndar fólk í flest störf í bænum til sjós og lands,“ segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri í Langanesbyggð.
Þórshöfn er eitt þeirra sveitarfélaga sem hafa þurft að glíma við fólksfækkun á undanförnum árum.
Bankarnir sem nú eru komnir í þrot, Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn, lánuðu ekki íbúum á landsbyggðinni til íbúðakaupa, hvorki í krónum né erlendri mynt.
Björn segir flest sveitarfélögin á landsbyggðinni lítt hafa fundið fyrir þenslutímum undanfarinna ára. Þau séu að mörgu leyti vel búin til þess að takast á við bankakreppuna sem fyrirsjáanlegt er að hafi umtalsverð áhrif á íslenskt samfélag á næstu árum. „Sparisjóðurinn hefur þjónað atvinnulífinu hér myndarlega og stutt við atvinnulífið, sem er blómlegt. Við finnum lítið fyrir kreppunni,“ segir Björn. Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir sveitarfélög á landsbyggðinni hafa tekist á við mikið samdráttarskeið á sama tíma og þenslutímar einkenndu lífsins gang á höfuðborgarsvæðinu. Þau geti gegnt lykilhlutverki í uppbyggingarstarfi á næstu árum.