„Skilaboðin voru skýr. Þeir eru tilbúnir að hjálpa af fullum þunga,“ sagði Sigmundur G. Sigurgeirsson, ráðgjafi Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra. Hann sat fund sem Árni átti í morgun með John Lipsky og Murilo Portugal sem eru meðal æðstu embættismanna IMF.
John Lipsky er aðal aðstoðarframkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF), og Murilo Portugal aðstoðarframkvæmdastjóri. Hann er talinn vera líklegur eftirmaður Dominique Strauss-Kahn framkvæmdastjóra IMF.
Einnig ræddi Árni við fulltrúa Bandaríkjanna í framkvæmdastjórn IMF í dag en framkvæmdastjórnin tekur á endanum ákvarðanir um lánveitingar sjóðsins.
Sigmundur sagði ekki hægt að nefna neina stærðargráðu á hugsanlegri hjálp IMF við Ísland á þessu stigi. Hún muni miðast við þörfina og skuldastöðuna. „Við þurfum að styrkja gjaldeyrisforðann og fá peninga til að reka bankana,“ sagði Sigmundur.
Starfsmenn IMF og íslenskir embættismenn vinna nú að því að greina skuldastöðu Íslands. Hér er einnig unnið að áætlun um aðgerðir sem hægt verður að kynna fyrir IMF. Sendinefnd sjóðsins hefur verið hér á landi til að afla upplýsinga um stöðu mála. Talað var um að hún myndi skila skýrslu sinni um miðja vikuna, en nú er talið að skýrslan tefjist fram í lok þessarar viku.