Alþjóðahafrannsóknaráðið leggur til að verulega verði dregið úr kolmunnaveiðum og aflamark árið 2009 verði 384 þús. tonn, enda sé það í samræmi við varúðarsjónarmið. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem kynnt var á fundi ráðsins nýverið.
Á árunum 1996-2004 var mjög góð nýliðun í kolmunnastofninn, sem stækkaði verulega í kjölfarið. Hrygningarstofninn stækkaði í um 7 milljónir tonna árin 2003 og 2004, en hefur farið minnkandi síðan vegna minnkandi nýliðunar og var hann metinn um 3,5 milljónir tonna í ársbyrjun 2008.
Gert er ráð fyrir að hrygningarstofninn muni vera rétt yfir varúðarmörkum í ársbyrjun 2009. Árgangar frá 2005 og 2006 eru metnir litlir og gögn úr bergmálsleiðöngrum í ár benda til þess að 2007 sé einnig lítill. Aflinn var um og yfir 2 milljónir tonna á árunum 2003-2006, en hefur farið minnkandi og er gert ráð fyrir að hann verði um 1,2 milljón tonna á árinu 2008. Talið er að stofninn sé nýttur umfram afrakstursgetu.
Nýlokið er fundi Alþjóðahafrannsóknaráðsins þar sem fjallað var um ástand nytjastofna í Norðaustur-Atlantshafi ásamt tillögum ráðgjafarnefndar um nýtingu fiskistofna.
Í júní sl. kynnti ráðið tillögur um flesta þá nytjastofna sem Íslendingar stunda veiðar úr en að þessu sinni eru þrír stofnar sem veitt eru ráð um og Íslendingar stunda umtalsverðar veiðar á. Það eru Norsk-íslensk vorgotssíld, kolmunni og makríll. Veiðar úr þessum stofnum eru alþjóðlegar og hefur Hafrannsóknastofnunin komið að mati á stærð og veiðiþoli þeirra með virkri þátttöku í vinnunefndum Alþjóðahafrannsóknaráðsins og komið þannig að mótun þessarar ráðgjafar.
Hrygningarstofn makríls er metinn um 2,8 milljónir tonna í
ársbyrjun 2008, en hann hefur stækkað um 40% síðan 2004. Árgangurinn
frá 2002 er stór, en árgangar 2003-2005 eru taldir vera nálægt
meðaltali. Ekki liggja fyrir nægilegar upplýsinga til að meta stærð
árganganna frá 2006 og 2007. Gert er ráð fyrir að aflinn á árinu 2008
verði um 600 þús. tonn. Alþjóðahafransóknaráðið leggur til að
heildaraflinn á árinu 2009 verði á bilinu 443-578 þús. tonn.