Valdamiklir embættismenn

Bráðabirgðastjórnir hinna nýju ríkisbanka, Nýja Landsbankans og Nýja Glitnis, eru embættismannastjórnir, skipaðar til skamms tíma. Þær gegna uppbyggingarstarfi og bera keflið frá skilanefndum gömlu bankanna til faglega skipaðra stjórna sem taka við eftir nokkra daga eða vikur.

Björgvin G. Sigurðsson leggur áherslu á að þetta séu embættismannastjórnir, skipaðar til skamms tíma til þess að gera hina nýju banka starfhæfa fyrir innanlandsmarkað. Stjórnirnar eru skipaðar af honum og Árna Mathiesen fjármálaráðherra.

Björgvin segir núverandi stjórnir ekki skipaðar á pólitískum forsendum. Hann hafi ekki hugmynd um hvar viðkomandi fólk standi í pólitík. Þau séu traustir embættismenn, en áhersla hafi verið á stuttar boðleiðir og hraða vinnu.

Bráðabirgðastjórn Nýja Glitnis er skipuð þremur konum og tveimur körlum. Stjórnarformaður er Þóra M. Hjaltested, lögfræðingur í viðskiptaráðuneyti.

Með henni sitja í stjórn Sigríður Rafnar Pétursdóttir, lögfræðingur í viðskiptaráðuneytinu, Guðjón Ægir Sigurjónsson hæstaréttarlögmaður, Maríanna Jónasdóttir, viðskiptafræðingur og skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, og Sigmundur Sigurgeirsson, viðskiptafræðingur og sérlegur ráðgjafi fjármálaráðherra.

Árni Mathiesen skipaði þau Maríönnu og Sigmund. Sigmundur hefur verið með Árna í Washington frá fyrsta degi. Því hefur Pétur Fenger, starfsmaður í fjármálaráðuneytinu, setið þar fyrir hann sem varamaður.

Guðjón Ægir var skipaður af viðskiptaráðherra, Björgvini G. Sigurðssyni. Aðspurður segir Guðjón það ekkert launungarmál að hann er flokksbundinn samfylkingarmaður eins og Björgvin.

Öll embættismenn

Með Þórhalli í stjórn situr Angantýr Einarsson stjórnmálafræðingur, sem er skrifstofustjóri rekstrar- og upplýsingaskrifstofu í fjármálaráðuneytinu. Þá eru þar viðskiptafræðingurinn Böðvar Jónsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, og Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóri í iðnaðarráðuneytinu og viðskiptafræðingur. Að lokum er þar Margrét Sæmundsdóttir, starfsmaður í viðskiptaráðuneytinu, sem er hagfræðingur.

Ekki farið eftir jafnréttislögum

Í 15. gr. jafnréttislaga segir að við skipun í stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli hlutfall kynja ekki lægra en 40% þegar fulltrúar eru fleiri en þrír. Þetta gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að.

„Þetta er alveg skýlaust brot á jafnréttislögum,“ segir Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu. Hún bendir á að lögin gildi um allar opinberar nefndir, ráð og stjórnir, hvort sem þær eru settar til bráðabirgða eða framtíðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert