Freyja ehf. hefur sent bréf til verslana þar sem fram kemur að í kjölfar atburða síðustu daga hafi forsvarsmenn fyrirtækisins ákveðið að draga til baka verðhækkun á sælgæti frá 1. október sl. Þetta kemur fram á vef Neytendasamtakanna.
Tilkynnt var í september um verðhækkun á vörum frá fyrirtækinu sem seldar eru í smásölu. Um 10% hækkun var að ræða á sælgæti. Verðhækkunin tók gildi 1. október sl.
Fram kemur á vef Neytendasamtakanna að samtökin fagni þessu og hvetji aðra til að fara að fordæmi Freyju. Jafnframt er minnt á að samtökin hafa ítrekað beint því til birgja og innlenda framleiðenda að þeir reyni að fremsta megni að hagræða til að halda aftur að hækkunum.