Tónleikaferð Sinfóníuhljómsveitar Íslands til Japans hefur verið frestað um óákveðinn tíma að ósk japansks fyrirtækis sem hafði skipulagt ferðina. Í samtölum og tölvupóstum létu Japanir m.a. í það skína að vegna frétta af Íslandi undanfarna daga væri hljómsveitinni ekki treystandi.
Undirbúningur fyrir ferðina hafði staðið yfir í um tvö ár og ætlaði hljómsveitin og starfsmenn, alls 85 manns, að leggja af stað á miðvikudaginn í næstu viku, að sögn Þrastar Ólafssonar, framkvæmdastjóra sinfóníuhljómsveitarinnar. Ferðin var í boði japansks velunnara sveitarinnar og hafði hljómsveitin ekki lagt út í kostnað vegna ferðalagins. Undirbúningurinn hafði hins vegar verið mikill og tímafrekur.
Að sögn Þrastar vísuðu Japanir til þess að ástandið á Íslandi væri það slæmt að hljómsveitinni væri ekki treystandi fjárhagslega. „En síðan held ég að aðalástæðan hafi nú verið sú að orðspor landsins er orðið svo lélegt, eftir að bönkunum var slátrað, að þeir hafi bara ekki getað selt miða eða að minnsta kosti ekki eins marga og þeir þurftu.“
Þröstur segir að fregnir frá Íslandi, m.a. um að gjaldeyrir væri skammtaður, hefðu haft áhrif auk þess sem hugsanlega hafi Japanir óttast að truflun yrði á samgöngum. „En það er alveg ljóst að orðspor okkar er komið niður í kjallara,“ segir Þröstur.