Vilja rannsókn á viðskiptum bankamanna

Rannsaka á ítarlega öll viðskipti fyrrverandi eigenda, bankaráðsmanna, bankastjóra og æðstu stjórnenda Glitnis, Landsbanka Íslands og Kaupþings síðastliðið ár. Þetta er krafa þingflokks Vinstri grænna en hann hefur sent skilanefndum bankanna bréf um málið þar sem tekið er fram að sérstaklega þurfi að skoða hugsanlegar millifærslur til erlendra banka, gjaldeyriskaup og fjármögnun þeirra og hvernig bankarnir stóðu að eignastýringu, ráðgjöf og flutningi peninga almennra viðskiptavina af bankareikningum yfir í ótryggari fjárvörslu, ss. hlutabréfasöfn eða peningamarkaðsreikninga.

Þingflokkurinn vill einnig að Ríkisendurskoðun kanni með hvaða hætti sú stofnun eigi að koma að ráðstöfun þeirra miklu fjármuna sem eru í höndum ríkisins eftir yfirtöku bankanna þriggja. „Það er okkar mat að óumflýjanlegt sé að Ríkisendurskoðun komi þegar að þeim þáttum sem á hennar verksviði eru og verða í framhaldinu. Lýtur það bæði að endurskoðun þeirra banka sem stofnaðir hafa verið í eigu ríkisins sem og að endurskoðun þeirra móðurfélaga sem ríkið hefur yfirtekið og eru nú í höndum opinberra skilanefnda,“ segir í bréfi sem þingflokkur VG hefur sent forsætisnefnd Alþingis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert