Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra bindur miklar vonir við að það takist að endurreisa Kaupþing með aðkomu lífeyrissjóðanna. Gott væri ef þeir yrðu burðarvirki í nýjum öflugum einkabanka. Þannig væri hægt að verja tap lífeyrissjóðanna vegna bankahrunsins.
Hann segist telja að ríkissjórnin hafi full tök á atburðarrásinni. Verið sé að reyna að tryggja að eignir bankanna í útlöndum falli ekki í verði. Þá sé lögð áhersla á að tryggja íslenska hagsmuni gagnvart Bretum. Nokkur íslensk stórfyrirtæki séu að undirbúa málsókn á hendur Bretum vegna þess hvernig þeir beittu hryðjuverkalögunum gegn íslenskum bönkum en það hafi haft úrslitaáhrif á stöðu Kaupþings og skelfileg áhrif á orðstír Íslands og möguleika íslenskra fyrirtækja í Bretlandi.
Össur Skarphéðinsson segir að það verði nauðsynlegt að gera upp bankahrunið á Íslandi og sjá hvað brást og hverjir eigi sökina. Það þurfi þó að vera breið samstaða í samfélaginu um hvernig að því verði staðið. Hann sé ekki á neinum nornaveiðum en það þurfi að skoða hvað fór úrskeiðis í kerfinu og hvernig var hægt að stofna til Icesave reikningana í Bretlandi en það sé myllusteinninn sem hangi um háls þjóðarinnar núna.