ESB blandar sér ekki í deilu

Geir H. Haarde og José Manuel Barroso á blaðamannafundi í …
Geir H. Haarde og José Manuel Barroso á blaðamannafundi í Brussel í febrúar á þessu ári. Reuters

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sagðist í dag ekki geta blandað sér í deilu Íslendinga og Breta, sem hófst þegar bresk stjórnvöld frystu eignir Landsbanka í Bretlandi á grundvelli þarlendra laga um hryðjuverkavarnir.

José Manuel Barroso, forseti Framkvæmdastjórnar ESB, sagði að embættismenn væru reiðubúnir að veita Íslandi aðstoð og greiða fyrir samvinnu við ESB ríki. Hins vegar yrði að leysa vandamál í samskiptum ríkja tvíhliða milli viðkomandi ríkja.

Fram kom í dag, að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, ræddi við Barroso í dag en ekki var upplýst hvað þeim fór á milli Geir ræddi einnig við Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóra NATO, og kom á framfæri athugasemdum Íslendinga í NATO-ráðinu vegna aðgerða Breta. 

Geir, aðrir ráðherra og þingmenn gagnrýndu Breta harðlega í umræðumn á Alþingi í dag. Fram kom hjá Geir, að íslensk stjórnvöld hefðu falið breskri lögmannastofu að kanna réttarstöðu Íslands í málinu. Þá hefur Kaupþing falið lögmannsstofu að undirbúa skaðabótamál gegn breskum stjórnvöldum vegna aðfarar þeirra að Singer & Friedlander, dótturfyrirtæki Kaupþings í Lundúnum. Fram kom í fréttum Sjónvarpsins að gerðar verði kröfur um hundruð milljarða króna skaðabætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert