Vestmannaeyjabær hefur orðið fyrsta íslenska sveitarfélagið til að hrinda í framkvæmd heildstæðri aðgerðaáætlun til að mæta yfirvofandi þrengingum á fjármálamarkaði, að sögn Elliða Vignissonar bæjarstjóra. Hyggst bærinn leita allra leiða til að verja íbúa fyrir þeirri höggbylgju sem fylgir hruni fjármálakerfisins og höfuðáhersla verður lögð á velferðarþjónustu og allt það sem lýtur að börnum og fjölskyldum þeirra, segir Elliði.
Meðal aðgerða má nefna að gjaldskrár á velferðarsviði verða ekki hækkaðar umfram vísitölu næstu 6 mánuðina, leikskólagjöld verða færð niður fyrir landsmeðaltal frá og með næstu mánaðamótum. Tekið verður upp styrktarkerfi fyrir börn sem njóta þjónustu dagmæðra og stefnt að því að niðurgreiða slíka þjónustu allt frá 12 mánaða aldri. Þá verður styrkur til félags eldri borgara hækkaður um 50% og allir yngri en 18 ára fá ókeypis í sundlaug Vestmannaeyja. Aukin áhersla verður lögð á ráðgjöf hvað varðar fjárhagsleg málefni og málefni fjölskyldna og eftirlit með rekstri stofnanna verður aukið, dregið úr yfirvinnu eftir föngum og áfram mætti telja.