Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings segir í minnisblaði um Ísland, að brýn þörf sé á að trúverðugur stöðugleiki komist á í peningamálum hér á landi, studdur af alþjóðlegum lánveitingum til að mæta hugsanlegum kröfum um ábyrgðir vegna erlenda innistæðna íslensku bankanna og tryggja nauðsynlega virkni hagkerfisins.
Segir fyrirtækið, að aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ásamt viðunandi erlendu lánsfé, gæti dregið úr ójafnvæginu á peningamarkaði og stytt þann alvarlega efnahagssamdrátt, sem sé í vændum. Því lengur, sem þetta tekur stjórnvöld, þeim mun meiri sé áhættan á að lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins verði lækkuð á ný, en Fitch lækkaði síðast einkunnina 8. október.
Þá segir Fitch, að ef samningaviðræður um ábyrgðir íslensku bankanna dragast á langinn gæti það einnig aukið þrýsting á lánshæfiseinkunn Íslands.