Kristín Árnadóttir, kosningastjóri framboðs Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, segir mikinn sóknarhug setja svip sinn á þessa síðustu daga fyrir kosninguna á föstudag. „Og þá er ég ekki bara að tala um okkar Íslendingana heldur einnig um Austurríkismennina og Tyrkina,” segir hún.
Kristín sagði í samtali við blaðamann mbl.is í dag að gríðarlegt annríki hefði einkennt þessa viku hjá þeim sem vinni að framboði Íslands. „Það er keppst um athygli aðildarþjóðanna nú þegar aðeins örfáir dagar eru til stefnu. Það er augljóst að ríkin þrjú leggja mikið undir og við erum engin undantekning frá því," sagði hún.
„Við höfum staðið hér fyrir öflugri dagskrá m.a. ráðstefnu um smáríki og mikilvægi þess að fulltrúi þeirra eigi sæti í öryggisráðinu. Þar var fullt hús og fundum við mikinn skilning og stuðning við sjónarmið okkar."
Hún sagði það einnig mjög mikilvægt, fyrir þá sem unnið hafi að framboðinu fyrir Íslands hönd, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hafi ákveðið að vera með hópnum á kjördag enda verði mikilvægir fulltrúar Austurríkismanna og Tyrkja einnig á staðnum. Þá sýni þátttaka ráðherra, svart á hvítu, að Íslendingum sé full alvara með framboðinu.
Kristín sagði ómögulegt að segja til um útkomuna, en að ljóst sé að á brattan hafi verið að sækja. Hún hafi hins vegar fundið mikinn stuðning við framboð Íslendinga, ekki síst frá ríkjum í Afríku. Þá hafi hún ekki orðið vör við neina breytingu á viðhorfi fólks í kjölfar atburðanna á Íslandi að undanförnu.
„Það er miklu frekar að fólk klappi okkur á bakið og segist sannfært um að við munum komast út úr þeim erfiðleikum sem við séum nú í,” sagði hún. „Það hafa svo margir lent í efnahagsþrengingum og annars konar hremmingum og það er ekkert feimnismál hér á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.”