Uffe Ellemann-Jensen, fyrrum utanríkisráðherra Danmerkur, fjallar um efnahagskreppuna á Íslandi í bloggsíðu sinni í dag og segir þar m.a. að segja megi að Ísland sé við upptök skjálftans sem nú sé að ganga yfir heimsbyggðina. Segir hann að víða hafi verið hæðst að Íslendingum vegna þess hversu djarft þeir hafi teflt en að það sé ekki fullkomlega sanngjarnt enda séu Íslendingar ekki einungis djarfir heldur einnig hörkuduglegir.
Ellemann-Jensen bendir m.a. á að Íslendingum hafi tekist að endurreisa stórverslanir í Danmörku sem hafi verið við það að lognast út af. Erfitt sé hins vegar að skilja það hvernig staðið hafi verið að málum að hálfu íslenskra yfirvalda sem sett hafi mun minni kröfur um tryggingar en yfirvöld annarra landa.
Hann segist einnig að ólíkt mörgum öðrum hafa skilið hugmyndafræðina að baki íslensku útrásinni m.a. í ljósi þekkingar sinnar á íslensku þjóðinni. Hann viti að Íslendingar leggi harðar að sér og séu ósérhlífnari og sjálfstæðari en flestir aðrir sem hann hafi kynnst.
Sjálfstæði þeirra komi þeim nú í koll þar sem þeir standi einir gegn gríðarlegum vanda. Þeir hafi fengið lán, sem veitt hafi verið í trausti á dugnað Íslendinga og lent í vandræðum, eins og svo margir aðrir, þegar hinn alþjóðlegu lánamarkaður fraus.
Vitnar hann m.a. í bókina Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness og segir að sjá megi ákveðinn samhljóm í stöðu Bjarts í Sumrahúsum og Íslendinga nú. Báðir hafi reist hafi sér hurðarás um öxl.Hann segir þó engan vafa leika á því að Íslendingar muni komast í gegn um þá erfiðleika sem þeir standi nú frammi fyrir. Þeir hafi áður þurft að greiða fyrir sjálfstæði sitt með skertum lífsgæðum en ættu þó að íhuga hvort slíkt sé raunhæfur kostur í nútímasamfélagi.
Fjöldi athugasemda fylgja blogginu, m.a. frá Íslendingum sem ýmist þakka Ellemann-Jensen hlý orð eða segja grein hans byggða á misskilningi og þjóðsögum. Aðrir segja að rekja megi vandann til brenglarar sjálfsmyndar og raunveruleikafirringar Íslendinga, sem telji sig stærsta og besta og á síðustu árum einnig ríkasta.