Lán IMF fullnægir ekki þörf ríkisins

 Fjármagn sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) getur mögulega lánað Íslendingum er ekki talið nægja til að fullnægja fjármagnsþörf Íslands, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Því er talið að IMF muni t.d. ekki leggjast gegn því að Ísland taki lán í Rússlandi. Nú er unnið á mörgum vígstöðvum að því að útvega fjármagn til að mæta brýnni fjárþörf Íslands.

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra átti fundi í gær í Washington með tveimur af æðstu embættismönnum IMF og einnig með fulltrúa Bandaríkjanna í framkvæmdastjórn sjóðsins. Hún tekur á endanum ákvarðanir um lánveitingar hans.

Sendinefnd íslenskra embættismanna hóf í gær viðræður í Moskvu við þarlend stjórnvöld um lánveitingu Rússa til Íslands. Þeim viðræðum verður haldið áfram í dag. Ekkert lá fyrir í gær um stærð mögulegs láns frá Rússum né tímasetningu, að sögn Sigurðar Sturlu Pálssonar, formanns nefndarinnar.

Seðlabankinn virkjaði í gær gjaldmiðlaskiptasamninga við seðlabanka Danmerkur og Noregs, samtals 400 milljónir evra eða um 200 milljónir evra frá hvorum seðlabanka.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði í síðustu viku í samtali við mbl.is að stefnan hefði verið sú að virkja ekki samningana nema upp kæmi neyðarþörf fyrir gjaldeyri. Sagðist Geir þá ekki sjá fyrir sér að sú þörf myndi vakna á næstu dögum en ljóst má vera af aðgerðum Seðlabankans nú að raunin hefur orðið önnur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka